Kaflar 0 til 11 eru lög félagsins. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins.
Kafli 1. Heiti, merki og aðstaða
Grein 1.
Heiti félagsins er Stigull, félag stærðfræði- og eðlisfræðinema við Háskóla Íslands. Merki félagsins skal ávallt hafa stærðfræði- eða eðlisfræðilegt þema.
Grein 2.
Félagsaðstaða Stiguls er í VR-151 og skal aðstaðan heita Epsilon.
Kafli 2. Félagsmenn
Grein 1.
Félagsmeðlimur getur hver sá orðið sem stundar nám i stærðfræði, hagnýttri stærðfræði, stærðfræði og stærðfræðimenntun, eðlisfræði, verkfræðilegri eðlisfræði eða jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og hefur greitt félagsgjöld. Aðrir nemar HÍ geta fengið félagsaðild í samráði við sitjandi stjórn.
Grein 2.
Ef félagsmaður hefur brotið lög eða reglur félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins getur stjórn Stiguls áminnt hann, og ef brot þykir gróft eða félagsmaður sinnir ekki áminningu getur stjórn vikið manni úr félaginu. Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að tjá sig um hina fyrirhuguðu ákvörðun. Meirihluta stjórnar þarf til að geta vikið félagsmanni úr félaginu.
Kafli 3. Tilgangur félagsins
Grein 1.
Að vinna að hagsmunamálum félagsmeðlima og vera í forsvari fyrir þá.
Grein 2.
Að efla félagsleg samskipti félagsmanna.
Kafli 4. Stjórn
Grein 1.
Stjórn skal skipuð 6-7 félagsmeðlimum; forseta, hirðfífli, skáld, féhirði, lénsherra og peði. Ávallt skal vera til staðar varamaður stjórnar (sjá grein 4.9 og lauf 5.7.7). Æskilegt er að minnst einn stjórnarmeðlimur komi úr hvoru fagi, stærðfræði og eðlisfræði.
Grein 2.
Forseti er fulltrúi félagsins í NáttVerki, samráðs- og samvinnuvettvangi hagsmunafélaga á Verkfræði- og náttúruvísindasviði (VoN) (sjá grein 7.1). Forseti vinnur með Nemendaþjónustu VoN við skipulagningu viðburða á vegum sviðsins, svo sem nýnemadagsins. Á aðalfundi skal nýkjörinn forseti vera sleginn til riddara af fráfarandi forseta með ílöngum hlut sem þykir við hæfi, og við athöfnina skulu aðrir meðlimir Stiguls standa og leggja hönd að brjósti sér til virðingar. Forseti félagsins skal einnig krýndur með kórónu félagsins eftir kjör, frá og með aðalfundi félagsins á því herrans ári 2019. Kórónan skal lögfest á þeim fundi en kjosa má um að skipta ut kórónunni á aðalfundi ef kórónubreytingartillaga er gerð.
Grein 3.
Hirðfífl hefur yfirumsjón með skipulagningu vísindaferða og annarra viðburða (sjá grein 8.1).
Grein 4.
Skáld skal sjá um fundargerðir og annast bóka- og blaðakost félagsins (sjá grein 10.1). Skáld ber einnig þá skyldu að fara með frumsamið ljóð á síðasta viðburði stjórnarinnar.
Grein 5.
Féhirðir skal annast fjárhag og bókhald félagsins. Féhirðir sér auk þess um skráningu í félagið.
Grein 6.
Lénsherra skal bera ábyrgð á viðhaldi og uppfærslu vefsíðu félagsins, auk þess að hafa umsjón með tölvukosti þess. Lénsherra skal bera undirtitilinn DJ Stiguls, nema viðkomandi telji annan Stigul hæfari. Lénsherra skal nefndur Ásgeir (n-1993)-ti, þar sem n er ártal vorannar þegar hann situr í stjórn.
Grein 7.
Peð skal efla tengsl nýnema við eldri nemendur. Stjórn skipar peði úr hópi nýnema í upphafi skólaárs.
Grein 8.
Stjórn skal skipa varaforseta sem tekur yfir störf forseta ef forseti forfallast um lengri tíma.
Grein 9.
Á stjórnarfundum ræður meirihluti. Falli atkvæði jafnt skal atkvæði forseta ráða.
Grein 10.
Sjái stjórnarmeðlimur sér af einhverjum orsökum ekki fært að halda áfram stjórnarsetu skal hann tafarlaust víkja úr stjórn og tekur varamaður við af honum. Stjórnin skipar í kjölfarið nýjan varamann.
Grein 11.
Stjórn skal auglýsa hlunnindi sin meðal félagsmeðlima, s.s. með tölvupósti eða innleggi á Facebookhóp felgains. Berist mótmæli innan viku skal greiða atkvæði um hlunnindin á almennum félagsfundi eða með netkosningu, sem haldin er innan tveggja vikna frá auglýsingu hlunninda. Stjórn skal einnig greina frá hlunnindum sínum í skýrslu sinni á aðalfundi.
Grein 12.
Sé auglýsing kostuð af fyrirtæki eða einstaklingi skal það tekið fram, sé nokkur vafi á.
Grein 13.
Skal haldin skrá um stjórnir félagsins ásamt mynd af stjórninni. Greint skal hver gegndi hvaða embætti og í hvaða námi þau voru.
Grein 14.
Ef forseti lætur af embætti skal boða til kjörfundar innan mánaðar og kosið þá í nýjan forseta. Varaforseti gegnir störfum forseta í millitíðinni og varamaður stígur inn í störf stjórnar í stað varaforseta.
Grein 15.
Öll opinber tölvupóstsamskipti stjórnar skulu fara fram í gegnum sameiginlegt tölvupóstfang stjórnar. Þar undir teljast t.d. samskipti við fyrirtæki vegna skipulags á viðburðum félagsins svo sem vísindaferða, árshátíðar og annarra ferða.
Kafli 5. Aðalfundur
Grein 1.
Aðalfund félagsins skal halda ár hvert eftir 15. mars en eigi síðar en 15. apríl. Boða skal til fundarins með fimm skóladaga fyrirvara hið skemmsta með þeim boðleiðum sem skilvirkastar þykja svo tryggt sé að boðin berist öllum félagsmeðlimum. Kosinn er fundastjóri við upphaf fundar.
Grein 2.
Málfrelsis-, áheyrnar- og kosningarétt hafa allir félagsmeðlimir. Einungis eru félagsmeðlimir með kjörgengi. Komist félagsmeðlimur ekki á aðalfund má hann skila atkvæði sínu skriflega til forseta.
Grein 3.
Gera skal kjörstjórn sem inniheldur fráfarandi forseta og forseta frá ári áður að því gefnu að þau komist á aðalfund eða eru ekki að bjóða sig fram. Ef svo er þá skal einn fulltrúi úr fráfarandi stjórn og einn fulltrúi stjórn ársins áður sitja í kjörstjórn að sömu skilyrðum.
Grein 4.
Lagabreytingartillögum skal skilað til stjórnar félagsins eða hún borin upp á aðalfundi. Nái lagabreytingatillaga samþykki meirihluta fundarmanna, öðlast hún gildi.
Grein 5.
Nýkjörin stjórn tekur við störfum strax að loknum aðalfundi. Skiptafund nýkjörinnar og fráfarandi stjórnar skal halda eigi síðar en tveimur vikum eftir aðalfund.
Grein 6.
Séu fleiri en eitt framboð í embættiskosningum á aðalfundi getur hver félagsmeðlimur óskað þess að kosningar séu leynilegar.
Grein 7.
Dagskrá aðalfundar skal vera.
Lauf 1
Fundargerð síðasta aðalfundar.
Lauf 2
Skýrsla stjórnar.
Lauf 3
Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
Lauf 4
Námsráðs- og deildarráðsfulltrúar kynna málefni liðins starfsárs, sjái þeir þörf til þess eða sé þess krafist af félagsmeðlimum.
Lauf 5
Lagabreytingar (gera skal ráð fyrir a.m.k. klst. fyrir þennan dagskrárlið).
Lauf 6
Kosning forseta skal fara fram á eftirfarandi hátt: Þeir félagsmeðlimir sem hafa boðið sig fram til embættis forseta skulu fá tækifæri til að flytja stutta ræðu áður en gengið er til leynilegra kosninga. Hver fundarmanna kýs einn frambjóðanda og sá sem hlýtur hreinan meirihluta atkvæða verður forseti félagsins. Hljóti enginn frambjóðandi 2π/13 hluta atkvæða skal kosið aftur á milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði i fyrri kosningunum. Ef einungis eitt framboð er í stöðu forseta þarf sá aðili að ná π/5 hluta atkvæða til að ná kjöri.
Lauf 7
Kosning féhirðis skal fara fram á eftirfarandi hátt: Þeir félagsmeðlimir sem hafa boðið sig fram til embættis féhirðis skulu fá tækifæri til að flytja stutta ræðu áður en gengið er til leynilegra kosninga. Hver fundarmanna kýs einn frambjóðanda og sá sem hlýtur hreinan meirihluta atkvæða verður féhirðir félagsins. Hljóti enginn frambjóðandi 2π/13 hluta atkvæða skal kosið aftur á milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði i fyrri kosningunum. Ef einungis eitt framboð er í stöðu féhirðis þarf sá aðili að ná π/5 hluta atkvæða til að ná kjöri.
Lauf 8
Kosning stjórnar skal fara fram á eftirfarandi hátt: Þeir félagsmeðlimir sem hafa boðið sig fram til stjórnar skulu fá tækifæri til að flytja stutta ræðu áður en gengið er til leynilegra kosninga. Ekki er kosið í embætti heldur fer atkvæðagreiðsla þannig fram að kjósa má allt að þrjá einstaklinga af þeim sem eru í framboði. Nýja stjórnin skal raða sér í embætti og tilkynna hverjir skipa embættin innan tveggja vikna frá aðalfundi. Séu fjögur eða fleiri í framboði skal sá fjórði í röðinni verða varamaður stjórnar Stiguls. Annars skal stjórn skipa varamann við fyrsta tækifæri. Ef einungis þrír frambjóðendur eru í embætti þá þarf hver aðili að ná π/5 hluta atkvæða til að ná kjöri.
Lauf 9
Ef eftir stendur embætti sem ekkert framboð barst til skal öllum viðstöddum félagsmönnum gefast tækifæri til að bjóða sig fram og gengið verður til annarrar kosninga sem framkvæmd er á hentugan hátt.
Lauf 10
Kosning þriggja til sex fulltrúa í ritnefnd Verpils (sjá 7.5).
Lauf 11
Tilnefning stjórnar í eftirfarandi embætti (sjá 7. kafla):
- Tveir endurskoðendur reikninga.
- Tveir fulltrúar í námsráð hvors fags, stærðfræði og eðlisfræði.
- Einn fulltrúi í deildarráð.
- Einn Íþróttaálfur
- Tveir trúnaðarmenn
Ef ekki eru næg framboð í embættin að ofan skal einn fulltrúi fráfarandi stjórnar koma upp í pontu og tilnefna einn einstakling í embættið. Eins kemur einn fulltrúi þeirra sem gengdu embættinu á yfirstandandi skólaári upp í pontu og tilnefnir annan einstakling í embættið. Ef mótbárur eru frá þeim tilnefndu þurfa þau að finna einhvern sér í stað. Ef einhver bauð sig fram í embættið fyrir tilnefningarnar er sá sjálfkjörinn en kosið er á milli þeirra tilnefndu upp á hina stöðuna.
Lauf 12
Ný stjórn skal vera grilluð af fráfarandi stjórn af eigin vali fráfarandi stjórnar, innan skynsemismarka. Ný stjórn ásamt meirihluta fundarmeðlima má hafna grillun ef henni finnst hún utan skynsemismarka
Lauf 13
Önnur mál.
Kafli 6. Almennir félagsfundir
Grein 1.
Stjórnin getur boðað til almenns félagsfundar um málefni er koma upp hverju sinni. Eru þeir ályktunarhæfir ef 1/3 hluti félagsmeðlima greiði atkvæði á þeim og skal einfaldur meirihluti ráða. Almennan félagsfund skal boða með minnst þriggja skóladaga fyrirvara, með þeim boðleiðum sem þykja skilvirkastar.
Grein 2.
1/5 hluti félagsmeðlima getur krafist almenns félagsfundar og er stjórninni skylt að verða við þeirri kröfu. Skal fundurinn haldinn í síðasta lagi fimm skóladögum eftir að krafan kemur fram. Almennan félagsfund skal boða með minnst þriggja skóladaga fyrirvara, með þeim boðleiðum sem þykja skilvirkastar.
Grein 3.
Samþykki almennur félagsfundur vantraust á stjórnina, stjórnarmeðlim eða embættismann ber stjórn, stjórnarmeðlim eða embættismanni sem hefur hlotið vantraust að víkja tafarlaust og skal félagsfundurinn þá kjósa nýja stjórn, stjórnarmeðlim eða embættismann sem sitja fram að næsta aðalfundi.
Kafli 7. Embætti Stiguls
Grein 1.
Námsráð er innan hvers fags hverrar deildar hvers sviðs HÍ. Námsráð snýr að kennsluháttum fagsins og því hvaða námskeið eru kennd innan fagsins. Stigull skal sjá til þess að tveir fulltrúar nemenda sitji í námsráði hvors fags, stærðfræði og eðlisfræði. Fráfarandi fulltrúar skulu kynna starf sitt fyrir komandi fulltrúum. Fulltrúarinir skulu kallast hagsmunafulltrúar Stiguls. Fulltrúar nemenda ber skylda að auglýsa þegar námsbrautarfundir eru á dagskrá og taka inn ábendingum frá samnemendum til að tryggja að rödd allra nemenda komist sem best til skila á fundinum. Fulltrúarnir gæta hagsmuna nemendanna og geta félagsmeðlimir leitað til fulltrúanna í trúnaði með málefni sem liggur þeim á hjarta. Hagsmunafulltrúar eru kosnir á aðalfundi.
Grein 2.
Deildarráð er innan hverrar deildar hvers sviðs HÍ. Deildarráð snýr að kennslu á framhaldsstigi, auk rannsókna, og starfar sameiginlega fyrir öll fög deildarinnar. Fög deildarinnar skulu skiptast á að eiga fulltrúa Raunvísindadeildar sem situr í deildarráði. Æskilegt er að fulltrúinn sé í framhaldsnámi og fög deildarinnar skulu skiptast á að eiga fulltrúann. Fráfarandi fulltrúi skal kynna starf sitt fyrir komandi fulltrúa.
Grein 3.
Nefnd Verpils skal kosin á aðalfundi og skulu meðlimir hennar vera þrir til sex og kallast verplar. Nefndin skal sjá um Instagram aðgang Stiguls, annast ljósmyndun á viðburðum félagsins og birta fréttir á vef félagsins. Stjórn félagsins skal sjá til þess að minnst einn verpill sé viðstaddur hvern viðburð Stiguls, þ.m.t. visindaferðir.
Lauf 1
Stjórn Verpils skal skipa geit stiguls sem mun sjá um virtasta miðil Stiguls "stigulmeme". Geitin má vera innan eða utan Stiguls en þarf að samþykkja heiðurinn .
Grein 4.
Alþjóðafulltrúar skulu vera kosnir á aðalfundi. Alþjóðafulltrúarnir skulu taka virkan þátt í störfum IAESTE-nefndar Íslands. Alþjóðafulltrúarnir sjá um að auglýsa viðburði og mikilvægar dagsetningar (t.d. umsóknarfrest fyrir starfsnám) á vegum IAESTE fyrir félagsmeðlimum Stiguls.
Grein 4.
Endurskoðendur reikninga skulu kosnir á aðalfundi. Hlutverk endurskoðenda er að fara yfir reikninga og kvittaanir svo ekkert misræmi sé þar á ferð.
Grein 5.
Íþróttaálfur Stiguls skal vera kosin á aðalfundi. Íþróttaálfur ber þá skyldu að halda í að minnsta einn íþróttaviðburð á árinu í samræmi við stjórn. Íþróttaálfurinn fer einnig með það hlutverk að auglýsa alla íþróttatengda viðburði sem koma við Stigli innan HÍ.
Grein 6.
Trúnaðarmenn skulu vera kosnir á aðalfundi. Trúnaðarmenn skulu vera bundnir trúnaði við nemendur og sjá til þess að mál sem komi á þeirra borð fari í réttan farveg. Á hverjum viðburði þarf í minnsta annar trúnaðarmannana að vera edrú. Trúnaðarmenn skulu jafnframt vera settir efst á meðlimasíðu Stiguls fyrir neðan stjórn með símanúmeri, netfangi og nafni.
Kafli 8. Viðburðir
Grein 1.
Stjórn Stiguls skal standa fyrir viðburðum til að efla félagslíf nemenda. Æskilegt er að a.m.k. eftirfarandi atburðir séu haldnir:
- Vísindaferðir eins marga föstudaga og mögulegt er
- Nýnemaferð
- Haustferð
- Hrekkjavökuveisla
- Próflokaveisla eftir jólapróf
- Afmæli SF (18. janúar)
- Skíðaferð
- Árshátíð
- Próflokaveisla eftir vorpróf
- Vorferð
- Mánaðarleg pöbbkviss
- Aðrir viðburðir sem áhugi þykir fyrir
Grein 2.
Ef skráning á viðburði Stiguls er auglýst kl. π skal hún vera upp á eins mikla nákvæmni og mögulegt er.
Kafli 9. Önnur mál
Grein 1.
Stigull tilheyrir eftirfarandi félögum eða er í samstarfi við þau:
- Íslenska stærðfræðafélagið
- NáttVerk
- IAESTE – The International Association for the Exchange of Students for Technical Experience.
Grein 2.
Leggja má fram breytingartillögu um merki félagsins i aðdraganda almenns félagsfundar (þ.m.t. aðalfundar). Ef breyta á merki félagsins skulu félagsmeðlimir fá að kjósa um það á félagsfundi hvort þeir vilja nýja merkið eða halda því gamla. Skipt er um merki ef það nýja hlýtur meirihluta atkvæða, annars er hinu gamla haldið.
Grein 3.
Gildi Stiguls eru fegurð, áreiðanleiki og jafnrétti. Leggja má fram breytingartillögu á gildunum fyrir aðalfund félagsins. Ef breyta á gildum félagsins skulu félagsmeðlimir fá að kjósa um það á aðalfundi hvort þeir vilji ný gildi eða halda þeim gömlu. Skipt er um gildi ef hin nýju hljóta meirihluta atkvæða, annars eru hinum gömlu haldið.
Kafli 10. Lög
Grein 1.
Lög þessi öðlast nú þegar gildi.
Grein 2.
Lög þessi skulu vera aðgengileg á heimasíðu félagsins. Lagabreytingartillögur sem samþykktar hafa verið sem lög skulu uppfærðar innan tveggja vikna frá samþykkt þeirra.